Frida Adriana Martins
Myndlistarmanneskja
Frida Adriana Martins er myndlistarkona búsett í Reykjavík. Hún er fædd og uppalin í Nürnberg í Þýskalandi en flutti til Íslands árið 2008, dregin af smæð samfélagsins, háskólaumhverfinu og því sem hún upplifði sem opið og afslappað, skapandi andrúmsloft.
Myndir hafa alla tíð verið miðpunktur í hugsun og tjáningu Fridu. Hún vinnur með málverk, teikningar og klippimyndir og nýtir listina til að vinna úr persónulegri reynslu, samfélagslegum aðstæðum og tilfinningum sem oft eru flóknar að setja í orð. Hún er hluti hinsegin samfélagsins og býr við bæði sýnilegar og ósýnilegar fatlanir sem hafa mótað sýn hennar á heiminn og orðið mikilvægur innblástur í verkum hennar. Hún nálgast þessi viðfangsefni með húmor, næmni og gagnrýnu auga listamannsins.
Frida hefur tekið þátt í fjölbreyttum sýningum, gjörningum og samstarfsverkefnum á undanförnum árum, meðal annars á vegum Listar án landamæra, Menningarnætur, Hugarafls og Gallerí 78. Hún hefur einnig unnið þverfaglega með tónlistarfólki, tekið þátt í bókaútgáfu og sett upp leiksýningu fyrir ungmenni. Verk hennar endurspegla sterka persónulega rödd, leikandi nálgun og djúpa þörf fyrir að skapa merkingu úr lífsreynslu.