Ísak Óli Sævarsson

Myndlistarmaður

Ísak Óli útskrifaðist af starfsbraut fyrir fatlað fólk frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ árið 2009, þar sem honum gafst kostur á að þroska list sína. Hann hefur síðan sótt fjölda námskeiða í Myndlistarskólanum í Reykjavík og lauk diplómanámi fyrir fólk með þroskahömlun frá sama skóla árið 2017.

Ísak Óli var valinn listamaður hátíðarinnar árið 2012 og hefur haldið fjölda sýninga í gegnum árin, bæði einkasýningar og samsýningar. Hann hefur meðal annars verið í samstarfi við Hugleik Dagsson og sýndu þeir saman verk á Kjarvalsstöðum árið 2014 á sýningunni SAMSUÐA. Einnig var Ísak Óli einn af hönnuðum markaðsefnis vegna Stoltgöngunnar árið 2016, þar sem hann vann í samstarfi við auglýsingastofuna PIPAR/TWBA.

Ísak Óli er í stöðugri þróun sem listamaður og listin þroskar hann sem einstakling. Hann er mjög afkastamikill listamaður og eru fjölmörg verk hans í einkaeigu sem og í eigu hins opinbera um land allt.

Ísak Óli vinnur mikið með endurtekningu í verkum sínum og má á vinnustofu hans sjá óteljandi málverk af Strumpunum í öllum mögulegum útfærslum, bræðrunum Karíusi og Baktusi, Valla og Múmínálfunum.

Brot af verkum Ísaks Óla