Óskar Theódórsson
Myndlistarmaður
Óskar Theódórsson býr og starfar í Reykjavík. Hann hefur stundað málaralistina í rúm 40 ár og er enn að mennta sig í myndlist, nú við Myndlistarskólann í Kópavogi.
Helstu fyrirmyndir Óskars eru gömlu meistararnir Vincent van Gogh, Paul Gauguin og Sigurður Eyþórsson, en konur og rómantík eru hans helsti innblástur. Meginviðfangsefni hans í listinni hafa verið konur og má telja myndir hans af þeim í þúsundavís. Litirnir í verkum hans endurspegla fjölbreytni lífsins, fegurð og styrk kvennanna sem hann sýnir á áhrifaríkan hátt.
Óskar hefur haldið yfir 30 einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga, þar á meðal á vegum Listar án landamæra. Hann tók nýverið þátt í sýningunni Sögur sem var hluti af menningar-, fræða- og listahátíðinni Uppskeru 2024.
Verk Óskars eru unnin með olíupastellitum, en hann hefur einnig unnið með vatnsliti og nýlega hafið gerð mynda með akrýltússpenna. Pastellitir eru þó hans helsta miðill og hann vinnur myndir sínar á áreynslulausan hátt með sterku hugmyndaflugi og brennandi áhuga á myndlistinni.
Óskar elskar að ferðast og eru Ítalía og Frakkland í miklu uppáhaldi. Þar sækir hann helst innblástur á listasöfn og í plötubúðir, enda er hann mikill tónlistaráhugamaður.
Markmið Óskars með list sinni er að sýna fjölbreytileika kvenna og fanga innri og ytri fegurð þeirra með litum, formum og tilfinningum.
Óskar er heiðurslistamanneskja hátíðarinnar List án landamæra 2025.