Listvinnzlan er inngildandi og skapandi vettvangur

Listvinnzlan er nýr skapandi vettvangur á sviði inngildingar, menningar, menntunar og lista.

Listvinnzlan er að koma á fót Listmiðstöð. Listmiðdtöð er brýnt verkefni. Starfsemin er atvinnuskapandi, hún eykur inngildingu í listalífi, menningarlífi og atvinnulífi.

Við Listvinnzluna starfar öflugt teymi listafólks sem býr yfir fjölbreyttri reynslu og þekkingu. Listvinnzlan tekur að sér verkefni og ráðgjöf ásamt að styðja listafólk við þátttöku í listalífi. Listvinnzlan veitir aðstoð við að halda sýningar, við sölu listaverka og aðstoðar áhugasama við að fjárfesta í myndlist.

Markmið Listvinnzlunar eru að vinna að inngildandi lista-, menningar- mennta-, og atvinnulífi þar sem öll tilheyra.

Margrét M. Norðdahl stofnaði Listvinnzluna árið 2022 en stofnun Listvinnzlunar á sér aðdraganda allt til ársins 2011. Nafnið vísar í framtíðina, frá fiskvinnslu til Listvinnzlu. Listin og skapandi vinna á sér engin takmörk og útilokar engan.


HVAÐ ER INNGILDING?

  • ,,Inngilding felur í sér margbreytileika, jafnrétti og jafnræði.

  • Hún felur í sér að við séum samþykkt eins og við erum. Af ólíkum þjóðernum, með fjölbreyttan húðlit, fötluð og ófötluð, af öllum kynjum, kynhneigð, aldri, stétt og svo framvegis.

  • Inngilding er að við fáum sömu tækifærin, valdeflingu og þann einstaklingsbundna stuðning sem við þurfum til að nýta okkur tækifærin.

  • Inngilding er þegar við tilheyrum.

  • Að tilheyra þýðir að þér finnst þú samþykkt eins og þú ert og þú treystir umhverfi þínu nógu mikið til að vera þú sjálf án ótta við að vera dæmd.

  • Að tilheyra felur í sér að þú hefur gildi - að þú sem manneskja sért þörf og eftirsótt. Að á þig sé hlustað og þú virt.’’

    MN 2022


STARFSEMI LISTVINNZLUNNAR

Starfsemin skiptist í þrjá megin hluta.

  • Ráðgjöf, þjónustu og verkefni sem starfsfólk Listvinnslunar tekur að sér fyrir einstaklinga, hópa, stofnanir og fyrirtæki.

  • Kynningu, stuðning og umboðsstörf fyrir listafólk. Hægt er að kynna sér listafólk hér á síðunni.

  • Listmiðstöð, unnið er að því að koma á fót listmiðstöð þar sem fatlað listafólk getur unnið að listsköpun og skapandi verkefnum og haft af því atvinnu.

STARFSFÓLK LISTVINNZLUNNAR

Margrét M. Norðdahl

Myndlistarkona

Margrét er listakona með BA í Sjónlistum og M.A.-gráðu í listkennslu.

Margrét hefur starfað við myndlist frá árinu 2001. Hún er stofnandi Listvinnslunar. Hún er kennari við Fjölmennt, símenntunar og endurmenntunarmiðstöð fyrir fatlað fólk og stundakennari við Listaháskóla Íslands. Margrét er varaformanneskja stjórnar Listahátíðar í Reykjavík og stjórnarkona hjá List án landamæra.

Áður var hún framkvæmdastýra og listrænn stjórnandi Listahátíðarinnar List án landamæra, deildarstýra Myndlistarnáms fyrir fatlað fólk í Myndlistarskólanum í Reykjavík og stjórnarkona hjá Safnasafninu á Svalbarðsströnd.

Margrét hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum. Hún hefur staðið fyrir og stjórnað fjölda menningar- og listviðburða, sýningarstýrt sýningum og hefur haldið marga fyrirlestra og erindi um inngildingu í listheiminum á mismunandi vettvangi lista, menntunar og fötlunar hérlendis og erlendis. Hún hefur kennt börnum og fólki á öllum aldri bæði list og jóga.

Hún er vön fundarstjórn og ýmissi rýnivinnu og skrifum.

M.A.-ritgerð hennar byggir á niðurstöðum eigindlegrar rannsóknar á möguleikum fatlaðs fólks á sviði lista.

Hún hefur hlotið einstaklingsverðlaun ÖBÍ - Öryrkjabandalags Íslands fyrir störf sín að inngildingu í listum, Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar ásamt List án landamæra og Múrbrjót Landssamtaka Þroskahjálpar í tvígang ásamt List án landamæra og Myndlistaskóla Reykjavíkur og Frikkann heiðursverðlaun Átaks, félags fólks með Þroskahömlun.

Margrét er framkvæmdastýra og ráðgjafi hjá Listvinnslunni.

Lee Lynch

Listamaður og kennari

Lee Lorenzo Lynch er listamaður og listkennari.
Í verkum sínum fæst hann við kvikmyndagerð, vídjó innsetningar og sýningarstjórn.

Hann er fæddur í Norður-Kaliforníu og býr og starfar nú í Reykjavík.

Lee er með BA gráðu í kvikmyndagerð frá California
Institute of the Arts (CalArts), og meistaragráðu í myndlist frá
University of California (USC) þar sem hann nam hjá
kvikmyndafræðingnum Jon Wagner.
Kvikmyndir hans hafa verið sýndar víða um heim á hátíðum eins og Sundance, International Film Festival Rotterdam, Viennale, Tribeca og Locarno International Film Festival.

Lee hefur kennt í yfir 20 ár og kennir nú á ýmsum listnámsbrautum í Reykjavík, þar á meðal MFA hönnunarnáminu við Listaháskólann í Reykjavík og námsbraut fyrir fólk með þroskahömlun við Myndlistaskólann í Reykjavík.

Lee er rágjafi hjá Listvinnzlunni

Hjördís Árnadóttir

Listakona, markþjálfi og garðyrkjufræðingur

Hjördís Árnadóttir er listakona með fjölbreytta menntun og reynslu á sviði myndlistar, jógakennslu, markþjálfunar, heilunar og garðyrkju. Hún hefur starfað sjálfstætt við skapandi verkefni, grafíska hönnun og stafræna miðlun, auk þess að sinna kennslu, ráðgjöf og félagsstörfum.

Hjördís hefur tekið þátt í fjölbreyttum list- og menningarviðburðum, á sviði tónlistar og danslistar. Meðal verkefna sem hún hefur tekið þátt í eru Heilsa þér Kjarval og Hjartað í fjallinu í samstarfi við Pál frá Húsafelli, Völuspá í LHÍ og dansverkið Kyrrja. Hún hefur kennt og unnið með fólki á öllum aldri í mismunandi aðstæðum, meðal annars hjá Blindrafélaginu, Reykjavíkurborg og Aromatherapyskólanum.

Hún er með markþjálfunarmenntun frá Evolvia (ACC-vottun), jógakennararéttindi frá Andartaki og garðyrkjufræðimenntun frá Landbúnaðarháskóla Íslands og Garðyrkjuskóla ríkisins. Einnig hefur hún stundað nám í grafískri hönnun, aromatherapíu, myndlist, píanóleik og rekstri.

Hjördís hefur setið í stjórn ICF Iceland, félags markþjálfa, og gegnt stjórnunarstörfum, m.a. sem deildarstjóri og garðyrkjufræðingur í borgarlandinu. Hún er sjálfstæð, áreiðanleg og víðsýn, með áhuga á samþættingu hugrænnar, líkamlegrar og skapandi vinnu.

Hjördís er ráðgjafi og starfandi með Listvinnslunni.