Margrét M. Norðdahl

Myndlistarkona, listfræðingur, kennari og ráðgjafi í inngildingu

Margrét hefur starfað við myndlist og listfræðslu frá árinu 2001. Hún er stofnandi og framkvæmdastýra Listvinnslunnar, vettvangs sem vinnur að inngildingu í listum og menntun. Margrét er kennari við Fjölmennt, sí- og endurmenntunarmiðstöð fatlaðs fólks, og stundakennari við Listaháskóla Íslands. Hún gegnir einnig embætti varaformanneskju í stjórn Listahátíðar í Reykjavík og á sæti í stjórn List án landamæra.

Margrét hefur gegnt fjölmörgum leiðtogastöðum innan lista- og menningargeirans, meðal annars sem framkvæmdastýra og listrænn stjórnandi List án landamæra, deildarstýra myndlistarnáms fyrir fatlað fólk við Myndlistarskólann í Reykjavík, og stjórnarkona hjá Safnasafninu á Svalbarðsströnd.

Hún hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum, auk þess að sýningarstýra og leiða fjölbreytta viðburði á sviði lista og menningar. Margrét hefur haldið fjölda erinda og fyrirlestra hérlendis og erlendis um inngildingu í listum, með sérstakri áherslu á tengsl lista, menntunar og fötlunar.

Margrét hefur kennt list og jóga fyrir börn og fullorðna á öllum aldri, auk þess sem hún hefur víðtæka reynslu af fundarstjórn, rýnivinnu og faglegum skrifum.

Margrét er með BA í Sjónlistum og M.A.-gráðu í listkennslu. M.A.-ritgerð hennar byggir á eigindlegri rannsókn á möguleikum fatlaðs fólks á sviði lista.

Hún hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín, þar á meðal einstaklingsverðlaun ÖBÍ – Öryrkjabandalags Íslands, Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar ásamt List án landamæra, tvisvar Múrbrjót Landssamtaka Þroskahjálpar, og Frikkann, heiðursverðlaun Átaks.

Margrét starfar í dag sem framkvæmdastýra og ráðgjafi hjá Listvinnslunni og heldur áfram að efla þátttöku allra í menningu og listum.