Listorkuver
Listvinnzlan
Tilnefning til hvatningaverðlauna ÖBÍ 2025
Tilnefning til hvatningaverðlauna ÖBÍ 2025
Við þökkum ÖBÍ kærlega fyrir að sjá og meta þá vinnu og þá sýn sem liggur að baki Listvinnzlunni.
Við óskum Magnúsi Orra innilega til hamingju með verðskulduð verðlaun og þeim Sigurði og Hákoni með tilnefningar og þökkum kærlega fyrir þeirra góðu störf.
Það er okkur mikill heiður að hafa verið tilnefnd til Hvatningarverðlauna ÖBÍ 2025 ,,fyrir brautryðjendastarf á sviði listsköpunar fatlaðs fólks og fjölgun atvinnutækifæra."
Listvinnzlan spratt af djúpri ást á listinni, trú á inngildandi listheimi og rétt allra að fá að nýta og njóta hæfileika sinna og skapa sér störf á sviði lista og menningar.
Við vitum að íslenskt lista- og menningarlíf er enn ekki nægilega inngildandi. Margt fatlað listafólk fær ekki alltaf þau tækifæri sem það á skilyrðislausan rétt á. Listvinnzlan er hluti af breytingunni sem er að eiga sér stað, hreyfiafl sem opnar dyr, víkkar sviðið og stuðlar að aðgengilegra, fjölbreyttara og réttlátara lista- og menningarlífi.
Markmið okkar eru skýr: að tryggja stöðugan, aðgengilegan og styrkjandi vettvang sem bætir lífsgæði, skapar tækifæri og styrkir stöðu fatlaðs listafólks á Íslandi og víðar.
Við þökkum ÖBÍ fyrir tilnefninguna, samstarfsaðilum fyrir stuðning og dásamlegu listafólki fyrir að skapa það lifandi samfélag sem Listvinnzlan er.
Þessi tilnefning gefur okkur kraft til að halda áfram og taka virkan þátt í að byggja upp réttlátara og fjölbreyttara menningarlíf á Íslandi.
Takk kærlega fyrir og til hamingju með alþjóðlegan baráttudag fatlaðs fólks.
Listvinnzlan
Listorkuver
Listvinnzlan er skapandi og inngildandi vettvangur á sviði lista og menningar.
Við rekum listmiðstöð að Austurstræti 5, 101 Reykjavík.
Við bjóðum uppá opin stúdíó og námskeið.
Við sinnum ráðgjöf um inngildingu og styðjum listafólk til þátttöku í listalífinu.
Þjónusta
Ráðgjöf, þjónusta og verkefni
Listvinnslan býður upp á ráðgjöf, þjónustu og verkefni fyrir einstaklinga, hópa, stofnanir og fyrirtæki. Við tökum að okkur fjölbreytt verkefni og höfum reynslu af að veita stuðning á ýmsum sviðum.
Kynning og stuðning fyrir listafólk
Við bjóðum einnig upp á kynningu, stuðning og umboðsstörf fyrir listafólk. Hægt er að skoða listafólk á síðunni okkar og kynna sér verk þeirra.
Listmiðstöð fyrir fatlað listafólk
Við höfum komið á fót listmiðstöð þar sem fatlað listafólk getur unnið að listsköpun og skapandi verkefnum. Með því að bjóða upp á slíka miðstöð vonumst við til að skapa atvinnumöguleika og auka þátttöku í samfélaginu fyrir listafólk með fötlun.
Listaverk - sölusíða
Listvinnzlan veitir fjölbreytta aðstoð innan myndlistar, bæði fyrir listamenn og áhugasama safnara.
Við styðjum við listamenn við að halda sýningar, koma listaverkum á framfæri og annast sölu þeirra.
Einnig aðstoðum við einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir sem vilja fjárfesta í íslenskri myndlist – hvort sem um er að ræða einstakt verk eða uppbyggingu á safni til framtíðar.
Markmið okkar er að skapa faglegan og traustan vettvang fyrir listsköpun, sýningar og meðvitaða listkaupendur.
Aðgengi
Staðsetning og aðgengi
Við erum staðsett í hjarta miðbæjarins – Austurstræti 5, á 3. hæð.
Inngangur er bæði frá Austurstræti 5 og Hafnarstræti 4:
Hafnarstræti: Rampur og nýleg lyfta með góðu aðgengi fyrir hjólastóla.
Austurstræti: Þröskuldur og eldri lyfta í góðu ástandi.
Aðgengi á staðnum:
Gott aðgengi um allt rýmið, þar á meðal aðgengileg snyrting. Rólegt og bjart umhverfi með stillanlegri lýsingu og vinnuaðstöðu sem hægt er að laga að mismunandi þörfum.