Annáll Listvinnzlunnar 2025

Tímamótaár fyrir Listvinnzluna

Starfsemin styrktist, sýnileiki jókst og hlutverk hennar sem faglegs og aðgengilegs vettvangs fyrir fatlað listafólk festist í sessi.

Styrkur frá Reykjavíkurborg gerði flutning í nýtt húsnæði í Austurstræti 5 mögulegan, þar sem miðstöðin er huti af lifandi menningarumhverfi.

Víðtækur stuðningur og viðurkenning frá m.a. Öryrkjabandalagi Íslands, Bandalagi íslenskra listamanna, Þroskahjálp, Átaki, Fjölmennt og List án landamæra.

Námskeið og störf í samstarfi við Fjölmennt og Vinnumálastofnun.

Sterk alþjóðleg tenging - Listvinnzlan speglar þróun og fyrirmyndir á borð við Creative Growth (Bandaríkin) og ActionSpace (Bretland).

Listvinnzlan sem samfélag - öruggt, inngildandi rými sem vinnur gegn félagslegri einangrun og eflir sjálfstraust og tengsl

Sýningar og viðburðir:

Stór sýning í Hörpu á dagskrá Uppskeru

Artivisma-smiðja í Norræna húsinu

Viðburðir á Menningarnótt

Sýningar í Hafnarborg, Gallerí Fold, Alþingi og nýju húsnæði Listvinnzlunnar

Dagatal Þroskahjálpar


Samstarf og sýnileiki - Umfjöllun hjá RÚV, heimsóknir erlendra gesta, samstarf við Alþingi og Listahátíð í Reykjavík.

Listafólk í brennidepli - Fjöldi listamanna héldu sýningar, hlutu viðurkenningar og greidda þátttöku.

Viðurkenningar - Tilnefning til Hvatningarverðlauna og viðurkenning frá ÖBÍ fyrir brautryðjendastarf.

Árið endaði með glæsibrag - Fyrsta sýning í nýju húsnæði með um 30 listamanneskjum og um 200 gestum á opnun og heimsókn borgarstjóra.

Horft til framtíðar - Áhersla á áframhaldandi stuðning, vöxt og aukin tækifæri fyrir fatlað listafólk.

2026 - Listvinnzlan fer inn í nýtt ár full af þakklæti, eldmóði og sköpunarkrafti.

Árið 2025 var afar viðburðaríkt og markaði tímamót í sögu Listvinnzlunnar. Starfsemin styrktist, sýnileiki jókst og Listvinnzlan festi sig enn frekar í sessi sem faglegur, aðgengilegur og valdeflandi vettvangur fyrir fatlað listafólk á Íslandi.


Meðmæli og viðurkenning

Starf Listvinnzlunnar naut víðtæks stuðnings árið 2025. Styrkur frá Reykjavíkurborg ber þar hæst og gerði okkur kleift að flytja í nýtt leiguhúsnæði í Austurstræti 5 þar sem nágrannar okkar eru í menningarstarfsemi og listum. Við héldum námskeið í samstarfi við Fjölmennt og með aðstoð þeirra og Vinnumálastofnunar réðum við starfsmanneskju. ÖBÍ réttindasamtök veittu okkur styrk og meðmæli, Bandalag íslenskra listamanna, Þroskahjálp, Átak, Fjölmennt og List án landamæra lýstu yfir eindregnum stuðningi og bentu á mikilvægi Listvinnzlunnar sem brautryðjanda í listsköpun fatlaðs fólks, menningarlegu jafnrétti og sköpun raunhæfra atvinnutækifæra. Listvinnzlunni er lýst sem einstökum og fordæmalausum vettvangi sem styrkir stöðu fatlaðs listafólks, eykur sýnileika þess og stuðlar að fjölbreyttara og réttlátara menningarlífi á Íslandi. Við erum eilíflega þakklát fyrir þennan góða meðbyr og stuðning.


Í alþjóðlegu samhengi

Það er mikilvægt að setja starfsemi Listvinnzlunnar í alþjóðlegt samhengi þar sem sambærilegur vettvangur er ekki til hér á landi. Við sem störfum innan Listvinnzlunar höfum heimsótt sambærilegar miðstöðvar á Norðurlöndunum, í Kaliforníu og í Evrópu. Erlendis hefur svipuð starfsemi sýnt fram á að þegar listafólk með þroskahömlun hefur aðgang að stöðugri aðstöðu, faglegum stuðningi og virku samtali við listheiminn skapast raunveruleg tækifæri til að vinna að listsköpun og til viðurkenningar og þátttöku á jafnræðisgrundvelli í lista og menningarlífi.

Góð dæmi um þetta eru alþjóðlega viðurkenndir listamenn á borð við William Scott, sem starfar við list sína í Creative Growth Art Center í Oakland, einni þekktustu listasmiðju heims fyrir fatlað listafólk. Þar hefur hann þróað listsköpun sína í faglegu umhverfi sem hefur leitt til alþjóðlegs sýnileika og viðurkenningar. Listakonan Judith Scott hverrar verk hafa verið sýnd víða um heim vann einnig að verkunum sínum í Creative Growth.

Á Bretlandi hefur listakonan Nnenna Kalu, sem hlaut hin virtu Turner-verðlaun árið 2025, fyrir stórkostleg verk sín, þróað listsköpun sína við ActionSpace í samstarfi við Studio Voltaire, þar sem hún hefur starfað að list sinni frá árinu 1999. Starf hennar sýnir með skýrum hætti hvernig langtíma stuðningur, aðgengileg vinnuaðstaða og faglegt umhverfi gera listafólki með þroskahömlun kleift að ná hæstu viðurkenningum samtímalistar á alþjóðavísu.

Listvinnzlan er hluti af þessari sömu hugsun og þróun. Með því að bjóða upp á stöðugan, aðgengilegan og faglegan vettvang fyrir listafólk með þroskahömlun á Íslandi er Listvinnzlan að byggja grunn að sambærilegum tækifærum hér á landi. Starfsemin leggur áherslu á listsköpun á eigin forsendum, fagmennsku og virk tengsl við menningarlífið – allt þættir sem eru sameiginlegir þeim alþjóðlegu fyrirmyndum sem hafa skilað listafólki út á alþjóðlegan vettvang.

Í þessu samhengi er Listvinnzlan ekki aðeins mikilvægt menningarverkefni innanlands heldur hluti af alþjóðlegri hreyfingu sem vinnur að því að tryggja fötluðu listafólki jafnan rétt til listsköpunar, sýnileika og viðurkenningar á heimsvísu.


Samfélag

Í Listvinnzlunni er ekki einungis unnið að listsköpun heldur byggt upp samfélag þar sem fólk tilheyrir, er séð og styður hvert annað. Fyrir mörg er Listvinnzlan fyrsti staðurinn þar sem þau upplifa sig sem hluta af skapandi heild, þar sem rödd þeirra skiptir máli og þar sem þau fá rými til að vera þau sjálf. Samveran, samtölin og samvinnan eru órjúfanlegur hluti af starfseminni og skapa jarðveg fyrir traust, sjálfstraust og vöxt.

Í Listvinnzlunni hefur fólk vaxið og þroskast, ekki aðeins í listsköpun sinni heldur einnig í félagslegu samhengi. Hér öðlast þátttakendur aukið sjálfstraust, tjáningarfrelsi og trú á eigin getu. Vinátta myndast, tengsl styrkjast og einstaklingar finna tilgang og festu í daglegu lífi. Þetta samfélag hefur sýnt sig vera mikilvæg mótvægi við félagslega einangrun.

Félagsleg einangrun er vaxandi vandamál í íslensku samfélagi og einmanaleiki er sérstaklega algengur meðal fatlaðs fólks og skynsegin fólks. Listvinnzlan mætir þessari áskorun með því að skapa öruggt, inngildandi og aðgengilegt rými þar sem margbreytileiki er styrkur. Þar er tekið tillit til ólíkra þarfa og upplifana og lögð áhersla á virðingu, jafnræði og gagnkvæman stuðning.


Samantekt ársins 2025

Janúar – mars

Árið hófst með starfsemi í Samfélagshúsinu í Bólstaðarhlíð þar sem haldnir voru opnir stúdíótímar og námskeið í samstarfi við Fjölmennt.
Í febrúar hélt Listvinnzlan stóra sýningu í Hörpu í tilefni 20 ára afmælis fötlunarfræða á Íslandi, þar sem listafólk fékk greitt fyrir þátttöku. Þátttakendur tóku einnig þátt í viðburðum á borð við sýninguna SÖGUR í Gerðubergi og ljóðakvöld hjá Reykjavík Poetics.
Í mars fór fram Artivisma-smiðja í Norræna húsinu í samstarfi við fjölda innlendra og erlendra aðila. Þar var unnið að plakatagerð, fræðslu og baráttulist. Starfsnemi úr Háskóla Íslands hóf störf og ráðgjafar frá Vinnumálastofnun kynntu sér starfsemina. Listvinnzlan studdi einnig listafólk við að gera ferilmöppur og útbúa og senda inn tilnefningar og umsóknir til Listar án landamæra.

Apríl – júní

Í apríl veitti Listvinnzlan ráðgjöf í Borgarnesi vegna fyrirhugaðrar listasmiðju og hélt fyrirlestur um inngildingu fyrir starfsfólk Borgarbókasafna. Námskeiðum í myndlist og kvikmyndalist lauk og undirbúningur hófst fyrir flutning í nýtt húsnæði.
Í maí flutti Listvinnzlan í Austurstræti 5 og gerðir voru samningar við Reykjavíkurborg og EIK fasteignafélag. Opnar smiðjur voru haldnar í maí og júní.  Sjónvarpsþættirnir Með okkar augum tóku upp umfjöllun um starfsemina sem sýnd var á RÚV haustið 2025. Gestir frá Svíþjóð heimsóttu Listvinnzluna og samstarf hófst við Þroskahjálp um dagatal 2026.
Sumarið færði Listvinnzlunni boð um samstarf við Listahátíð í Reykjavík á næstu tveimur hátíðum, 2026 og 2028, og sýningu í Listasafni Samúels í Selárdal sumarið 2026.

Júlí – september

Í júlí var sumarfrí.
Í ágúst hófust opin stúdíó á ný, haldin var ljóðasmiðja og viðburður á Menningarnótt í samstarfi við Átak og Lestrarklefann. Gerður var samningur við Fjölmennt og Vinnumálastofnun.
Í september hófust tvö ný námskeið í myndlist og kvikmyndalist með 16 þátttakendum og um 15 manns nýttu sér opnar smiðjur. Sanna Magdalena Mörtudóttir, formaður Velferðarráðs Reykjavíkurborgar, heimsótti Listvinnzluna. Samstarf hófst við Alþingi um sýningu sem opnaði í október.

Október – desember

Í október kynnti Rannveig Einarsdóttir sviðsstjóri Velferðasviðs Reykjavíkurborgar sér starfsemina og Eva Þengilsdóttir framkvæmdastýra ÖBÍ og Unnur S. Ólafsdóttir verkefnisstýra einnig. Við fengum frábæran starfsnema frá Menntavísindasviði til okkar. Bandarískir heimildamyndagerðarmenn tóku viðtöl við listafólk um Listvinnzluna. Þorvaldur Arnar Guðmundsson opnaði sýningu á Vökudögum á Akranesi.
Á opnunarhátíð Listar án landamæra var Þórir Gunnarsson útnefndur listamaður hátíðarinnar 2025 og Óskar Theódórsson heiðurslistamaður. Einkasýning Þóris opnaði í Hafnarborg og sýning Óskars í Gallerí Fold.
Sýning Listvinnzlunnar á Alþingi opnaði 25. október og Alþingi leigir verkin af listafólkinu. Forseti Alþingis bauð Listvinnzlunni í móttöku í tilefni sýningarinnar.
Í nóvember tók Listvinnzlan þátt í málþingi um jafnrétti til náms í Borgarleikhúsinu þar sem kom skýrt fram skýr vilji Listaháskóla Íslands að gera fólki með þroskahömlun kleift að stunda nám við skólann.
Við funduðum með Loga Einarssyni ráðherra og starfsfólki í ráðuneytinu og fengum góðar viðtökur.
Listvinnzlan hlaut tilnefningu til Hvatningarverðlauna og viðurkenningu frá ÖBÍ fyrir brautryðjendastarf á sviði listsköpunar fatlaðs fólks og fjölgun atvinnutækifæra.
Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri kom í heimsókn á hverfadögum í borginni og kynnti sér starfsemi Listvinnzlunar og verk listafólksins.
Í lok Nóvember opnuðum við fyrstu sýninguna í nýju húsnæði, þar sýndu um 30 listamanneskjur verk sín sem þau hafa unnið að á vettvangi Listvinnzlunar síðasta árið. Málverk, skúlptúrar, heimildamynd, stuttmyndir, vídjóverk og ljósmyndir. Um 200 manns komu á opnun og fögnuðu með okkur. 

TAKK
Reynsla ársins 2025 sýnir með skýrum hætti hversu mikilvægur vettvangur Listvinnzlan er – bæði sem faglegt listasamfélag og sem félagslegt rými sem stuðlar að valdeflingu, þátttöku og bættum lífsgæðum. Til að þessi mikilvæga starfsemi geti haldið áfram að vaxa, dafna og ná til fleiri er brýnt að tryggja henni stöðugan og öflugan stuðning. Stuðningur við Listvinnzluna er fjárfesting í menningarlegu jafnrétti, félagslegri þátttöku og fjölbreyttara samfélagi þar sem öll tækifæri til að blómstra.

Við förum inn í nýtt ár, 2026, full af þakklæti, eldmóði og sköpunarkrafti.

Ítarkegri annáll Listvinnzlunnar 2025

Tilnefning til hvatningaverðlauna ÖBÍ 2025

Tilnefning til hvatningaverðlauna ÖBÍ 2025

Við þökkum ÖBÍ kærlega fyrir að sjá og meta þá vinnu og þá sýn sem liggur að baki Listvinnzlunni.

Við óskum Magnúsi Orra innilega til hamingju með verðskulduð verðlaun og þeim Sigurði og Hákoni með tilnefningar og þökkum kærlega fyrir þeirra góðu störf.

Það er okkur mikill heiður að hafa verið tilnefnd til Hvatningarverðlauna ÖBÍ 2025 ,,fyrir brautryðjendastarf á sviði listsköpunar fatlaðs fólks og fjölgun atvinnutækifæra."

Listvinnzlan spratt af djúpri ást á listinni, trú á inngildandi listheimi og rétt allra að fá að nýta og njóta hæfileika sinna og skapa sér störf á sviði lista og menningar.

Við vitumíslenskt lista- og menningarlíf er enn ekki nægilega inngildandi. Margt fatlað listafólk fær ekki alltaf þau tækifæri sem það á skilyrðislausan rétt á. Listvinnzlan er hluti af breytingunni sem er að eiga sér stað, hreyfiafl sem opnar dyr, víkkar sviðið og stuðlaraðgengilegra, fjölbreyttara og réttlátara lista- og menningarlífi.

Markmið okkar eru skýr: að tryggja stöðugan, aðgengilegan og styrkjandi vettvang sem bætir lífsgæði, skapar tækifæri og styrkir stöðu fatlaðs listafólks á Íslandi og víðar.

Við þökkum ÖBÍ fyrir tilnefninguna, samstarfsaðilum fyrir stuðning og dásamlegu listafólki fyrir að skapa það lifandi samfélag sem Listvinnzlan er.

Þessi tilnefning gefur okkur kraft til að halda áfram og taka virkan þátt í að byggja upp réttlátara og fjölbreyttara menningarlíf á Íslandi.

Takk kærlega fyrir og til hamingju með alþjóðlegan baráttudag fatlaðs fólks.

#listvinnzlan

#hvatningarverðlaun

Við höldum opnunarpartý Listvinnzlunnar og opnum sýningu listfólks okkar 29.nóvember!

Miðborgin er komin í sparifötin og það er Listvinnzlan líka.

Hlökkum til að sjá ykkur í dag á OPNUN og LIST Í LISTVINNZLUNNI.

Laugardaginn 29.nóvember klukkan 17 - 19 (5-7) í Austurstræti 5, 3 hæð.

Inngangur bæði frá Austurstræti 5 og Hafnarstræti 4-6.

Hafnarstrætismegin er rampur og stór lyfta. Gott aðgengi, sjá upplýsingar hér: www.listvinnslan.is/adgengi

Róleg opnun frá 16 - 16:50 (þá verður engin tónlist og lítið áreiti).

- Við fluttum í Austurstrætið í maí, það er ekki seinna vænna að halda opnunar og innflutningsboð.

- Fjöldi listafólks hafa unnið að verkum sínum hjá Listvinnzlunni síðan í maí.

- Þau sýna verkin sín í Listvinnzlunni. Verkin eru mörg til sölu.

Verkin verða til sýnis og sölu fram í miðjan desember.

Við auglýsum opnunartíma í desember síðar.

- Öll eru velkomin að koma!

Listafólkið sem sýnir verk sín eru:

Elín Sigríður María Ólafsdóttir

Kolbeinn Jón Magnússon

Helga Matthildur Viðarsdóttir

Sigrún Huld Hrafnsdóttir

Atli Már Indriðason

Gígja Garðarsdóttir

Þórir Gunnarsson

Benedikta Rostan

Kristján Rostan

Andrea Gavern

Fríða Adriana Martins

Ísak Óli Sævarsson

Ásdís Ásgeirsdóttir

Guðmundur Stefán Guðmundsson

Kári Hrafn Jóhannesson

Birkir Sigurðsson

Harpa Rut Elísdóttir

Elín Fanney Ólafsdóttir

Gunnar Már Pálsson

Óskar Theódórsson

E. Sóldís Þorsteinsdóttir

Lilja Dögg Birgisdóttir

Þorvaldur Arnar Guðmundsson

Erlingur Örn Skarphéðinsson

Haukur Björnsson

Listaháskóli Íslands , ÖBÍ réttindasamtök, HÍ, HA og Þroskahjálp - Landssamtökin Þroskahjálp og Borgarleikhúsið standa fyrir málþingi um aðgengi að listnámi.


Laugardaginn 1.nóvember. Klukkan 10 - 14.
Í Borgarleikhúsið - Aðgengi er gott
Öll velkomin - kostar ekki 🌟Listvinnzlan tekur þátt
Auðvitað á Listnám að vera líka fyrir fatlað fólk!
Það þarf að skrá sig!

  1. Nóvember

Skráning

Listvinnzlan í samstarfi við Alþingi Íslendinga.

Við uppsetningu listaverka á Alþingi.

Verk eftir listafólk Listvinnzlunnar prýða veggi á Alþingi næsta árið

Alþingi er opið almenningi laugardaginn 25. október á milli klukkan 11 og 16.

Táknmálstúlkuð leiðsögn klukkan 14:40

Skráning fer fram á www.althingi.is

Alþingi - skráning

Listamanneskjur

Elín Sigríður María Ólafsdóttir

Atli Már Indriðason

Þórir Gunnarsson

Helga Matthildur Viðarsdóttir

Sigrún Huld Hrafnsdóttir

Gígja Garðarsdóttir

Kolbeinn Jón Magnússon

Sýningarstýra er Margrét M Norðdahl